„Það er engin aukning á rottugangi í Reykjavík [...] a.m.k. ekki í mínum bókum,“ segir Þorsteinn Garðarsson, löggiltur meindýraeyðir og eigandi Stífluþjónustunnar.
Hann segir allar sögusagnir um aukinn rottugang í Reykjavík vera úr lausu lofti gripnar og lítið þurfi til að þær magnist upp á skömmum tíma. „Ef það sést rotta ganga eftir Vesturgötunni og það eru þrír sem sjá hana, þá eru hundrað sem vita af því um kvöldið.“
Að sögn Þorsteins er stofninum haldið niðri með árlegum aðgerðum að hálfu borgarinnar þar sem eitrað er í hvern einasta holræsabrunn á höfuðborgarsvæðinu og er þannig m.a. komið í veg fyrir faraldur.
Þorsteinn segir rottuna halda sig einna helst í neðri byggðum borgarinnar, þá einkum í grennd við miðbæ og Hlíðarhverfi. „Það hefur ekkert að gera með verra ástand þar, þetta eru bara orðin það gömul hverfi,“ segir Þorsteinn og bendir á að gömul og brotin klóakrör séu helstu búsetuskilyrði fyrir rottur.
Hann segir nær engar rottur vera í efri byggðum Kópavogs, lítið sé af þeim í Breiðholti og nær hending ef rotta finnst í Garðabæ. Í Hafnarfirði finnast þær helst í grennd við gamla miðbæinn.
Þorsteinn segir stærð fullorðinnar rottu í Reykjavík vera nokkuð staðlaða með um 20 sm langan búk.
„Þær verða ekkert jafn stórar og sögurnar segja.“