Framsóknarkonur saka Egil um einelti

Egill Helgason
Egill Helgason mbl.is/Rax

Landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna átelur Egil Helgason, fjölmiðlamann, fyrir birtingu á myndbandi sem hann birtir á vefsíðu sinni Silfur Egils 4. október sl. og segja hann leggja Vigdísi Hauksdóttur alþingismann í einelti.

Á myndbandinu, sem ber titilinn „Gullkorn Vigdísar Hauksdóttur“ eru ýmis ummæli þingmannsins tekin saman.

Segir í tilkynningu frá framsóknarkonum að landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna álítur myndbandið vera myndbirtingu eineltis og harmar slík vinnubrögð fjölmiðlamannsins.

Segir jafnframt í tilkynningunni að athæfi hans teljist ekki síst alvarlegt í ljósi þess að hann er starfsmaður Ríkisútvarpsins, fjölmiðils allra landsmanna.

Í tilkynningunni segir einnig að til séu ýmsar skilgreiningar á einelti sem allar eiga þó sameiginlegt að vísa til neikvæðrar hegðunar sem beinist að ákveðnum aðila eða aðilum á vinnustað. Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustö̈ðum, nr. 1000/2004, er einelti skilgreint þannig:

„Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að“.

Segir í tilkynningu framsóknarkvenna að fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á mótun þeirrar menningar og orðræðu sem fram fer í samfélaginu og með slíkri birtingu er verið að samþykkja einelti. Landsstjórnin veltir upp þeirri spurningu á hvaða vegferð við séum sem samfélag þegar slík birting er samþykkt á svipuðum tíma og talsverð umræða
hefur verið um einelti og skelfilegar afleiðingar þess.

Landsstjórnin telur einnig myndbirtingu sem þessa ekki til þess fallna að auka veg og virðingu Alþingis, en það er verkefni sem við þurfum öll að taka þátt í saman, þingmenn sem aðrir.

Jafnframt hvetur landsstjórnin Egil Helgason til þess að biðja þingkonuna afsö̈kunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka