Vegleg gjöf á aldarafmæli

Kristín Ingólfsdóttir, reklor HÍ og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við athöfnina …
Kristín Ingólfsdóttir, reklor HÍ og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við athöfnina í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tilkynnti á aldarafmælishátíð Háskóla Íslands í Hörpu í dag að stjórnvöld  hyggist leggja 1,5 milljarða króna í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands á fjórum árum, fram til ársins 2014.

Jafnframt er sett það markmið að árið 2016 verði tekjur háskólans  í samræmi við meðaltal tekna á hvern stúdent í háskólum í OECD-ríkjunum. Tveir þriðju þess sem upp á vantar komi frá ríkinu en þriðjung fjárins afli skólinn sjálfur.  Það geri hann fyrst og fremst með því að sækja í alþjóðlega rannsóknarsjóði. Loks er sett markmið um að árið 2020 verði þessar tekjur orðnar þær sömu og meðaltal á Norðurlöndum.  

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við þetta tilefni í dag að engar auðlindir væru mikilvægari en menntun og menning hverrar þjóðar. „Ekkert er dýrmætara en að fá að þroska færni sína og kunnáttu og að rækta mannlega eiginleika á uppbyggilegan hátt. Sú þjóð sem kappkostar það hlýtur að eiga bjarta framtíð.“ 

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði af sama tilefni að það væri háskólafólki ómetanlegt að skynja að stjórnvöld og Alþingi deildu framtíðarsýn með skólanum

„Það lýsir framsýn, á erfiðum tímum í fjármálum ríkisins, að setja markmið til langs tíma um uppbyggingu háskólans. Það er afar mikilvægt að við getum byggt upp skólann með sambærilegum fjárveitingum og við sjáum í löndunum í kringum okkur. Þessir fjármunir verða fyrst og fremst nýttir í þágu þeirrar sóknar sem öll miðar að því að skapa aukinn verðmæti og grunn auðlegðar, velsældar og þeirrar samfélagsmyndar sem við viljum móta, “ sagði rektor.

Gert er ráð fyrir því að framlögin í Aldarafmælissjóðinn verði árangurstengd. Horft verður til markmiðasetningar í stefnumótun Háskóla Íslands 2011 – 2016 og mælikvarða sem m.a. eru notaðir af OECD til að meta samkeppnishæfni þjóða og jafnframt tekið mið af hagvexti hér á landi og stöðu ríkisfjármála. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert