Beitti hana ofbeldi árum saman

Ólafur Skúlason
Ólafur Skúlason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups, segir að hún hafi verið pabbastelpa þrátt fyrir að hann hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi um árabil. Ólafur var með einkaklósett á heimilinu þar sem hann braut á henni. Þetta kom fram í viðtali Þórhalls Gunnarssonar við Guðrúnu Ebbu í Sjónvarpinu í kvöld. Bók Elínar Hirst, Ekki líta undan, um ævi Guðrúnar Ebbu, kemur út í kvöld.

Valdið var ótakmarkað

Hún sagði að hann hefði haft ótakmarkað vald yfir henni og það hefði hann vitað. Hann þurfti ekki annað en að nikka höfðinu þá hafi hún hlýtt og farið sjálfviljug inn á klósettið. Guðrún Ebba segist alltaf hafa óttast að faðir hennar myndi segja frá því hún leit svo á að hún bæri sjálf ábyrgð á ofbeldinu að hluta.

Hún hafi upplifað svo mikla lömunartilfinningu að hún hafi ekki getað yfirgefið klósettið þar til faðir hennar sagði henni að hún mætti fara upp í herbergið sitt aftur. Ein jólin hafði hann sagt henni að bíða inni á klósetti eftir að hann hafði brotið á henni. Hann hefði síðan komið inn á klósettið aftur og fært henni appelsínflösku. Guðrún Ebba segir að bragð og lykt skipti máli í minningunni og til að mynda geti hún helst ekki hugsað sér að drekka appelsín vegna þeirra minninga sem hún á um föður sinn þessi jól.

Hún segir að þegar hún fór að vinna úr sínum málum hafi rödd föður hennar ómað fyrir henni - ef þú segir frá þessu Guðrún Ebba þá er úti um þig, segir Guðrún Ebba.

Guðrún Ebba segir aðspurð þegar Þórhallur spurði hana út í viðbrögð móður hennar að það sé eitt það hræðilegasta sem móðir upplifir er að heyra barnið sitt segja frá ofbeldi sem þessu. Hún segir að það sé ekki sitt að segja frá því hvar móðir hennar hefur um málið að segja.

Oft líkara sambandi við ástkonu en dóttur

Í viðtalinu í kvöld kom fram að Ólafur misnotaði dóttur sína ekki bara á heimilinu heldur hafi hann farið með hana í bíltúra síðdegis. Guðrún Ebba segir að það hafi aldrei neinn sagt neitt á heimilinu þegar hann tilkynnti að hann ætlaði í bíltúr með dóttur sína. Hann hafi síðan ekið með hana stutt frá heimilinu og þar náð fram vilja sínum.

Guðrún Ebba segir að faðir hennar hafi oft komið fram við hana eins og ástkonu sína þrátt fyrir að hún var einungis barn að aldri. Til að mynda þegar þau hafi farið saman til London.

Þegar hún er sextán ára hafi einhver styrkur komið yfir hana og hún neitað föður sínum en þau voru bara tvö ein heima. Hún var sofandi þegar hann kom drukkinn inn í herbergi hennar en hún fékk yfir sig einhvern kjark og kom honum út úr herberginu.

Guðrún Ebba segir að þegar mál kvenna sem sökuðu Ólaf um kynferðislegt ofbeldi árið 1996 hafi hún hugsað með sér að þetta gæti alveg verið satt sem þær sögðu en henni fannst að það ætti ekki að segja frá þessu. Þær ættu að láta kyrrt liggja líkt og hún hafði sjálf gert.

Ofbeldið hófst að nýju fyrir 12 árum

Guðrún Ebba segir að þegar hún fór með foreldrum sínum til Kanada fyrir tólf árum hafi ofbeldið hafist á ný. Þá var hann hættur sem biskup og hún hafi þurft að fara í gegnum mikla vinnu meðal annars með sálfræðingi til þess að vinna sig úr því ofbeldi og hún hafi helst ekki viljað ræða þetta. Fjallað er lítillega um þetta i bókinni en Guðrún Ebba segist ekki vilja ræða nánar um þetta atvik. Einungis eitt ár er síðan hún sagði sálfræðingi sínum frá þessu fyrst.

Ofbeldið nær fram á fullorðinsár og hún telur að faðir hennar hafi talið með því að brjóta gegn henni á ný hafi hann ætlað að gulltryggja að hún myndi aldrei segja frá ofbeldinu. „Ég breyttist bara í barnið aftur," segir Guðrún Ebba.

Einungis fjórum mánuðum eftir ofbeldið í Kanada flutti Guðrún Ebba hjartnæma ræðu í sjötugsafmæli föður síns.

Guðrún Ebba fór í áfengismeðferð árið 2003 og þá hafði Ólafur samband við meðferðaraðilana, Stígamót, sálfræðing hennar og æskuvinkonur hennar þar sem hann hélt því fram að fólk væri að reyna að koma einhverjum grillum í höfuðið á dóttur hans. Hann sagði við Guðrúnu Ebbu að hann hefði hringt inn á Vog og þar hefði honum verið tjáð að konur fylltust oft ranghugmyndum þegar þær færu í meðferð. Eins sagði hann að mikil geðveila væri í móðurfjölskyldu hennar og hún væri sjálf geðveik og þunglynd. Hann reyndi allt til þess að koma í veg fyrir að fólk tryði henni, segir Guðrún Ebba.

Þegar faðir hennar lést tók hún ákvörðun um að mæta ekki í jarðarförina og gerði það ekki og ekki heldur dætur hennar.

Ekki líta undan er saga Guðrúnar Ebbu dóttur Ólafs Skúlasonar biskups. Bókin fjallar um afleiðingarnar af því þegar satt er látið kyrrt liggja og nauðsyn þess að horfast í augu við hið liðna, hversu sárt og erfitt sem það kann að vera, segir á vef Forlagsins sem gefur út bókina.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert