Það var heldur betur óvenjuleg sjón sem mætti Sigursteini bónda Sveinbjörnssyni í Litlu-Ávík uppi í girðingum þegar hann var að athuga með fé í morgun. Þá var ærin Menja, sem er fimm vetra, borin tveim hvítum hrútlömbum. Talið er að hún hafi borið í gær.
Menju var sleppt út með öðru geldfé í vor ásamt hrútum rétt þegar sauðburður var að byrja og lömbin hafa því komið undir á milli 15. og 20. maí. Menju var strax komið í hús með lömbin sín tvö, enda norðan allhvass og snjókoma komin um hádegið.
Árið 2004 bar ærin Grágás tveim lömbum í Litlu-Ávík í endaðan september í miðri sláturtíð.