Varað við ísingu

Mynd úr safni
Mynd úr safni Árvakur/Ómar

Ísing mun myndast mjög víða á vegum um landið norðan- og norðvestanvert nú þegar kólnar mjög í veðri í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á það einkum við á fjallvegum, en líka í byggð, fyrst á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi.

Vindur er að snúast í norður og er nú krapi á Vestfjörðum en þar er gert ráð fyrir éljagangi síðar í dag. Á Norðvesturlandi versnar veður um eða skömmu fyrir hádegi með snjómuggu og síðar éljum, krapi til að byrja með í byggð. Þetta á m.a. við um Holtavörðuheiði þar sem gert er ráð fyrir ofankomu um hádegisbil og versnandi skyggni.

Vindur á fjallvegum allt að 10-15 m/s í Skagafirði og Eyjafirði og er reiknað með nokkuð dimmri hríð og kófi um tíma síðdegis, en lagast síðan í kvöld.

Á Vestfjörðum er snjóþekja og hálka á fjallvegum. Á Norðurlandi eru hálkublettir á Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Á Norðausturlandi er hálka á Hellisheiði eystri. Á Vestur-, Suður-, Suðaustur- og Austurlandi eru vegir greiðfærir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert