Tilboð verða opnuð á morgun í gerð Vaðlaheiðarganga en upphaflega átti að opna þau fyrir viku en því var frestað. Sex aðilar buðu upphaflega í verkið og reyndust þeir allir hæfir, en einn dró tilboð sitt til baka.
Tveir aðilar bjóða í verkið sem eingöngu eru frá Íslandi, Ístak og Norðurverk, en sex fyrirtæki í Eyjafirði standa að baki því síðarnefnda. ÍAV býður hins vegar í verkið í samstarfi við svissneska fyrirtækið Marti Contractors Lts, Suðurverk ásamt tékkneska fyrirtækinu Metrostav a.s og fimmti aðilinn er Leonhard Nilsen & Sonner AS frá Noregi.
Um er að ræða gerð jarðganga á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals ásamt byggingu tilheyrandi forskála og vega. Jarðgöngin verða 9,5 m breið og 7,2 km löng, steinsteyptir vegskálar verða um 320 m langir og vegir um 4 km að lengd.