Ekki tilraun til þöggunar

Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Karl Sigurbjörnsson, biskup. mbl.is/Ómar

Biskupsstofa hefur jafnframt sent frá sér yfirlýsingu vegna máls Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Þar er m.a. vitnað til niðurstöðu Rannsóknarnefndar kirkjunnar um að ekki hafi verið um tilraun til þöggunar að ræða í meðferð kirkjunnar og biskups í málinu.

Yfirlýsing Biskupsstofu er eftirfarandi:

„Biskupsembættið og kirkjuráð hafa sætt gagnrýni í sambandi við samskipti þeirra við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur. Flestir þættir þessa máls komu fram í Rannsóknarskýrslu kirkjuþings. Þó virðist ríkjandi sá skilningur að erindi hennar hafi ekki verið svarað fyrr en rúmu ári síðar og því er mikilvægt vegna umræðunnar að benda á nokkur atriði varðandi þetta til skýringar.

Guðrún Ebba setti í bréfi sínu fram nokkur atriði um bætt vinnubrögð kirkjunnar varðandi kynferðisbrotamál auk þess að óska eftir því að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir fengi áheyrn hjá Kirkjuráði, sem og hún sjálf. Kirkjuráð ákvað að bjóða Sigrúnu Pálínu á fund ráðsins 19. júní 2009 og var Guðrúnu Ebbu boðið að koma á þann fund. Guðrún Ebba hafnaði því og taldi mál þeirra ósambærileg. Í lok fundarins með Sigríði Pálínu samþykkti Kirkjuráð ályktun sem tekur mið af ábendingum Guðrúnar Ebbu. Kirkjuþing 2009 samþykkti siðareglur fyrir presta og alla starfsmenn kirkjunnar og reglur um svonefnda skimun. Það var gert til að bæta vinnubrögð kirkjunnar.

Þegar Guðrún Ebba mætti til fundar við Kirkjuráð 17. ágúst 2010 baðst biskup afsökunar á því hve dregist hefði að svara málaleitan hennar. Hún tók því vel og sagði að sér væri mest um vert að fundurinn ætti sér stað. Á fundinum sagði Guðrún Ebba sögu sína og biskup tjáði henni sorg og samlíðan viðstaddra og tjáði henni hvað kirkjan hefði gert til að koma á móts við óskir hennar og vinna að betri vinnubrögðum og viðhorfum í þessum efnum.

Þegar ásökun kom fram síðastliðið sumar um að meðferð kirkjunnar á þessu máli væri tilraun til þöggunar af hálfu biskups ákvað Kirkjuráð að fara þess á leit við Kirkjuþing að sett yrði á laggirnar óháð Rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á málinu.

Niðurstöður nefndarinnar lágu fyrir hinn 10. júní síðastliðinn. Þar er bent á að mistök hafi verið gerð hvað varðar skráningu erindisins og dráttur á því að Guðrún Ebba var boðuð til fundar. Að mati nefndarinnar var hér þó ekki um tilraun til þöggunar að ræða.

Biskup og Kirkjuþing báðust afsökunar á mistökunum. Kirkjuþing samþykkti einróma ályktun og kaus fimm manna nefnd til að koma með tillögur um úrbætur í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar með það að markmiði að vinnubrögð í öllu sem snertir forvarnir, fræðslu og viðbrögð og eftirfylgd er varða kynferðislegt áreiti og ofbeldi væri til fyrirmyndar. Þær tillögur verða lagðar fyrir Kirkjuþing 2011."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert