Vátryggingafélag Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknað af 9 milljóna króna kröfu ekkju Guðmundar Sesars Magnússonar, sem fórst er vélbátnum Berki frænda NS055 hvolfdi í desember 2009, um greiðslu úr VISA gullkortatryggingu hjá VÍS.
Jafnframt var VÍS sýknað af kröfu ekkjunnar um greiðslu úr F+3 fjölskyldutryggingu hjá VÍS en krafan hljóðaði upp á rúmar 6,5 milljónir króna.
Guðmundur Sesar var korthafi VISA Gullkorts. Ekkjan krafðist dánarbóta úr hendi VÍS þar sem hann greiddi með gullkorti sínu flugfargjald sitt til Egilsstaða 15. desember 2009. Guðmundur Sesar og félagi hans, sem komst lífs af úr sjóslysinu, fóru akandi til Vopnafjarðar og fóru rakleiðis um borð í bátinn, en ætlunin var að sigla honum til Reykjavíkur. Guðmundur Sesar fórst hins vegar er bátnum hvolfdi, eins og áður segir.
Deilt var um það fyrir dómi hvort atvikið sem ekkjan byggði kröfu sína á félli undir gildissvið VISA gullkortatryggingarinnar. VÍS og ekkjuna greindi á um það hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er hann lést eða á ferðalagi.
Í skilmálunum segir að vátrygging samkvæmt eftirfarandi skilmálum sé jafnan gild á ferðalögum í allt að 60 samfellda ferðadaga ef a.m.k. helmingur þess ferðakostnaðar sem til fellur áður en ferð hefst hefur verið greiddur með VISA kreditkorti.
Jafnframt segir að einstaklingur sem fer til vinnu eða náms sé einungis vátryggður á útleið og heimleið.
Byggði ekkjan mál sitt á því að í skilmálum tryggingarinnar væri þess hvergi getið að tryggingin væri ekki gild á ferðalögum ef vátryggður væri við vinnu. Á þetta féllst dómarinn hins vegar ekki þar sem í skilmálum tryggingarinnar er sérstaklega tiltekið að einstaklingur sem fer til vinnu eða náms sé einungis vátryggður á útleið og heimleið.
Fyrir liggur að félagið ÍSG Ræktun ehf. hafði keypt bátinn Börk frænda NS055 skömmu áður en umræddur atburður gerðist. Tilgangur ferðarinnar var að sækja bátinn og sigla honum til Reykjavíkur. Mennirnir höfðu, ásamt öðrum, stofnað félagið ÍSG Ræktun ehf. til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi. Byggir ekkjan á því að þeir hafi ekki verið starfsmenn félagsins og hafi ekki verið á neinum launum hjá félaginu. Þá hafi sigling þeirra á bátnum, þegar slysið varð, ekki verið þáttur í þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var á vegum félagsins.
Þegar metið er hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er slysið varð verður ekki fram hjá því litið að hann sat í stjórn ÍSG Ræktunar ehf. og var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins, segir í niðurstöðu dómsins. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að kaupin á bátnum voru liður í þeirri starfsemi sem félaginu var ætluð og flutningur bátsins til Reykjavíkur sömuleiðis.
Enda þótt Guðmundur Sesar hafi ekki verið launaður starfsmaður félagsins þykir ljóst að hann hafi, er slysið varð, verið við vinnu í þágu félagsins. Er því fallist á með VÍS að krafan falli utan gildissviðs VISA gullkortatryggingarinnar. Hið sama á við um hvað varðar fjölskyldutrygginguna þar sem hann var við vinnu en ekki við frístundaiðju.