Ökumenn hafa átt í vandræðum á Fjarðarheiði í dag, flestir farþegar á leið í ferjuna Norrænu, sem leggur úr höfn í fyrramálið. Hefur lögregla þurft að fá björgunarsveitir sér til aðstoðar, að hjálpa fólki á vanbúnum bílum niður af heiðinni.
Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum hafa engin óhöpp orðið eða slys á fólki. Talsverð ofankoma hefur verið á heiðinni og mikil hálka myndast. Hafa ökutæki í vandræðum verið á sumardekkjum og ökumenn ekki ráðið við aðstæður, margir hverjir erlendir ferðamenn. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa einnig verið á ferðinni og verða það áfram í nótt við að bera sand og salt á veginn, svo að allir komist nú í tæka tíð um borð í Norrænu.