Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð undrast þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð natríumklóratverksmiðja á Grundartanga við Hvalfjörð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ályktun frá samtökunum segir að það sé miður ef stjórnvöld ætli ekki að láta það vera forgangsverkefni í starfi sínu að stuðla að heilsusamlegu umhverfi íbúa landsins.
„Nauðsynlegt og sjálfsagt er að gæta fyllstu varúðar gagnvart fyrirtækjum sem vitað er að geti spillt umhverfinu með hættulegum efnum, í þessu tilfelli er m.a. um að ræða vítissóta og saltsýru,“ segir í ályktuninni. Umhverfisvaktin segist hafna alfarið því viðmiði Skipulagsstofnunar að gefa megi fyrirtækjum „afslátt“ á kröfu um umhverfismat, vegna þess að mengun frá þeim sé lítilvæg miðað við þá mengun sem fyrir er á tilteknu svæði.
Umhverfisvaktin bendir á það að aldrei hafi verið rannsökuð samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga. Því sé ekki vitað hver mengun umhverfisins sé í raun og veru. Þá séu niðurstöðu mengunarmælinga vegna iðjuveranna á Grundartanga ónothæfar sem vitneskja til að byggja á, vegna þess að ábyrgð mælinganna sé hjá forsvarsmönnum iðjuverjanna sjálfra. Bent er á að hreinsibúnaður iðjuveranna á Grundartanga hafi ítrekað bilað, síðast hjá Norðuráli nú í september, með ókunnum afleiðingum enda hafi þær ekki verið rannsakaðar.
Umhverfisvaktin telur því að fremur en að auka hættu á mengun á svæðinu væri nær að gera meiri kröfur en nú eru gerðar til gæða og öryggis í hreinsikerfum iðjuverjanna á Grundartanga. Væntir hún þess að sveitastjórn Hvalfjarðarsveitar beiti sér fyrir mati á umhverfisáhrifum vegna umræddrar natríumklóratverksmiðju.
Umhverfisvaktin var stofnuð í fyrra af hópi áhugafólks um verndun lífríkisins við Hvalfjörð jafnt í sjó, lofti og á landi.