Boston Globe: Lífi Önnu ekki stefnt í hættu

James
James "Whitey" Bulger. Reuters

Ritstjórar dagblaðsins Boston Globe segja að almenningur hafi átt rétt á því að vita hver upplýsti bandarísku alríkislögregluna (FBI) um það hvar bandaríski glæpaforinginn James „Whitey“ Bulger hafi verið í felum. Þess vegna hafi nafn Önnu Björnsdóttur verið birt.

Þeir segja að lífi Önnu hafi ekki verið stefnt í hættu með nafnbirtingunni, þetta kemur fram í frétt Boston Globe.

Ritstjórarnir segja að almenningur hafi átt rétt á því að vita alla söguna á bak við handtöku Bulgers og það hafi verið mat ritstjóranna að það hafi vegið þyngra en að virða friðhelgi Önnu, sem benti FBI á dvalarstað Bulgers.

Á forsíðu Boston Globe sl. sunnudag var Anna nefnd sem einstaklingurinn sem ljóstraði upp um dvalarstað Bulgers, sem FBI handtók loks í júní sl. en þá hafði hann verið 16 ár á flótta undan réttvísinni. Þá kom fram að hún hefði fengið greiddar sem samsvarar um 230 milljónum kr. fyrir að koma upplýsingunum á framfæri við lögreglu.

Þetta var hluti af frétt blaðamannanna Shelley Murphy og Mariu Cramer sem fjölluðu um líf Bulgers á flótta og hvað varð honum loks að falli. En sagt var frá því hvernig Anna kynntist Catherine Greig, kærustu Bulgers.

Ritstjórar Boston Globe hafa hins vegar verið harðlega gagnrýndir fyrir að birta nafn Önnu og stofna lífi hennar þar með í hættu, t.d. vegna mögulegra hefndaraðgerða.

Ritstjórar Globe segjast hafa íhugað málið vel og lengi. Niðurstaðan hafi hins vegar verið sú að birta nafnið enda vilja þeir meina að ekki sé verið að stofna lífi Önnu í hættu. Þeir segja að það hafi þegar komið fram víða að Íslendingur hefði greint lögreglunni frá því hvar Bulger væri að finna. Þar með hafi nágrannar Önnu í Santa Monica í Kaliforníu getað lagt saman tvo og tvo og gert sér grein fyrir því að Anna væri viðriðin málið. Bulger og Greig væru á meðal þeirra.

„Við erum sannfærð um að Whitey Bulger og Cathy Greig vita nákvæmlega hver uppljóstrarinn er,“ segir Jennifer Peter, fréttastjóri hjá Boston Globe. 

„Við spurðum einstaklinga sem koma að rannsókn málsins hvort hún yrði í hættu stödd ef við myndum nefna hana á nafn. Enginn sagði við okkur að hún yrði á nokkurn hátt í hættu,“ sagði Peter.

Martin Baron, ritstjóri hjá Boston Globe, segir að blaðið hafi rætt við fjölmarga heimildarmenn sína í tengslum við fréttina. Samkvæmt þeim hafi Bulger vitað hver hafi komið upplýsingunum á framfæri við lögregluna.

Blaðakonan Shelley Murphy segist hafa greint bandarísku alríkislögreglunni og dómsmálaráðuneytinu frá því að hún væri að íhuga að birta nafn Önnu. Hún segir að fulltrúar FBI og ráðuneytisins hafi ekki gert neinar athugasemdir varðandi öryggi hennar.

Catherine Greig, kærasta Bulgers, sem Anna kynntist í Santa Monica.
Catherine Greig, kærasta Bulgers, sem Anna kynntist í Santa Monica. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert