Sjö af eigendum jarðarinnar Teigsskógar lýstu yfir andstöðu við friðlýsingu Teigsskógar á síðasta ári í kjölfar þess að eigendur aðliggjandi jarða, Grafar og Hallsteinsness, óskuðu eftir því við umhverfisráðherra að skógurinn og hluti af landi jarðanna yrði friðlýstur.
Teigsskógur er í landi jarðanna þriggja. Þær eru allar í eyði. Fulltrúar eigenda jarðanna tveggja mótmæltu áformum um að leggja Vestfjarðaveg eftir endilöngum skóginum og fengu umhverfismati hnekkt fyrir dómstólum.
Friðlýsingarhugmyndin er enn í umhverfisráðuneytinu sem ekki hefur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að hafinn verði formlegur undirbúningur að friðlýsingu. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að það gerist með samningum og hefð er fyrir því að ekki sé gengið frá friðlýsingu nema samningar náist við hvern einasta landeiganda.