Siglingastofnun Íslands segir að Landeyjahöfn hafi verið valinn staður og form eftir ýtarlegar rannsóknir í mörg ár.
Grunnforsendan hafi verið að velja höfninni stað á ströndinni þar sem ölduorkan væri minnst. Það væri þar sem sandfjara suðurstrandarinnar gengi lengst fram í átt til Vestmannaeyja og sandflutningar væru jafnframt minnstir þar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að þar sem sandflutningar á Bakkafjöru eru í báðar áttir þurftu brimvarnargarðarnir að vera jafnlangir, að sögn Siglingastofnunar. Hafnargerð með lengri görðum hefði kostað sjö sinnum meira en raunin varð.