Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum funduðu í dag um boðaðar tillögur um skerðingar á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Fordæma félögin „ruddaskap“ stjórnvalda varðandi framlög til heilbrigðismála en mikil reiði var í fundarmönnum.
Um er að ræða Framsýn - stéttarfélag, Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn - félag iðnaðarmanna. Eftir fundinn sendu félögin frá sér ályktun þar sem segir m.a.:
„Enn á ný sjá stjórnvöld ástæðu til að ráðast að grunnstoðum atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum með ruddaskap. Boðaðar tillögur fjárlaganefndar Alþingis gera ráð fyrir skerðingum á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga um 71,6 m.kr. eða um 8,5% á árinu 2012. Þessi viðbótarskerðing er boðuð þrátt fyrir að mjög fast hafi verið sótt að rekstri þessarar mikilvægu stofnunar á undanförnum árum. Forsvarsmenn og starfsmenn hafa gert allt til að bregðast við lækkandi framlögum til rekstrar með hagræðingu og aðhaldi í rekstri. Að mati stéttarfélaganna verður ekki lengra komist í sparnaði nema það sé markmið núverandi stjórnvalda að ganga endanlega frá starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga með lokun."
Krefjast stéttarfélögin þess að stjórnvöld leggi tillögurnar þegar í stað til hliðar, þar sem þær ógni mjög alvarlega heilbrigðisöryggi og þar með búsetuskilyrðum í Þingeyjarsýslum. Minna félögin einnig á viljayfirlýsingu ríkistjórnarinnar og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum um uppbyggingu atvinnulífs í sýslunum, sem undirrituð var 25. maí 2011. Þar standi orðrétt: „Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu, sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur."
Stéttarfélögin krefja stjórnvöld um skýringar á orðalaginu í viljayfirlýsingunni í ljósi tillögu fjárlaganefndar sem gangi út á að lama starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.
„Öflug heilbrigðisþjónusta á svæðinu er ein af meginforsendum þess að öflugt atvinnulíf þrífist í Þingeyjarsýslum og því kemur ekki til greina að veikja þjónustuna frá því sem nú er," segir í ályktun stéttarfélaganna.