Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fundaði með Guido Westerwelle í Frankfurt í dag. Aðildarviðræður bar á góma og ítrekaði Westerwelle stuðning Þýskalands við þær, sem hann ítrekaði svo í ræðu við setningu bókastefnunnar í Frankfurt - fagnaði því að Ísland væri á leið í Evrópusambandið.
En Westerwelle sló svo á létta strengi og lét þau orð fylgja að eldgosið í Eyjafjallajökli á sínum tíma hefði ekki aðeins truflað flugsamgöngur, heldur einnig rútuferð kanslara Þýskalands.
Málefni norðurslóða bar einnig á góma á fundinum. „Við fórum yfir afstöðu landanna tveggja og ég tjáði honum að ég vildi samstarf við Þýskaland, þeirra stefna væri í einna mestu samræmi við okkar stefnu - að enginn fengi að nýta auðlindirnar á norðurslóðum fyrr en mótuð hefði verið skýr og sterk lagaumgjörð,“ sagði Össur eftir fundinn í samtali við Morgunblaðið.
„Þá erum við einhuga um að vísindamenn um allan heim fái heimildir til að rannsaka norðurslóðir, því hlýnunin er vandamál okkar allra. Við urðum ásáttir um að fá okkar sérfræðinga til að finna formlegan samstarfsgrunn um rannsóknir. Ég hóf máls á þessu við hann, með því að nefna að Alfred Wegener, sem varð frægur fyrir að setja fyrst fram landrekskenninguna, hefði gengið Vatnajökul og síðar farið á íslenskum hestum á Grænlandsjökul," sagði Össur.