St. Jósefsspítala lokað

St. Jósefsspítali.
St. Jósefsspítali. mbl.is/Árni Sæberg

St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður lokað um áramótin, að því er fram kom í fréttum RÚV. Tilkynnti Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, þetta á starfsmannafundi á St. Jósefsspítala í dag. Björn mun halda fleiri starfsmannafundi á Landspítalanum á fimmtudag, vegna aðgerða sem grípa þarf til á næstunni.

Ein lyflækningadeild hefur verið starfandi í Hafnarfirði, fyrir aldraða einstaklinga sem bíða aðgerða og meltingarfærasjúklinga, alls 18 rúm. Á deildinni hafa starfað 29 manns í 19 stöðugildum.

Björn segir í samtali við mbl.is að nýta eigi tímann framundan til að reyna að finna önnur störf á spítalanum fyrir sem flesta af þeim sem unnið hafa á St. Jósefsspítala, sem sameinaðist Landsspítala sem kunnugt er um síðustu áramót.

Að sögn Björns er ekki hægt að útiloka að ekki takist að útvega öllum störf, einhverjir hafi einnig haft uppi áform um að hætta störfum. Ekki sé heldur útilokað að deildin verði lögð niður fyrir áramót, ef aðstæður leyfi.

„Við höfum þurft að fækka töluvert störfum á spítalanum undanfarið. Það þarf að fækka heildarfjölda starfsmanna á næsta ári en munum reyna að nýta starfsmannaveltuna sem mest," segir Björn, sem mun kynna aðgerðir Landspítalans á starfsmannafundum á fimmtudag.

Spurður hvað verði um húsnæði St. Jósefsspítala um áramót segir Björn að reynt verði að finna því annað hlutverk, en ljóst sé að það henti illa fyrir nútíma sjúkrahúsrekstur. Það muni verða verkefni Fasteigna ríkisins að kveða upp úr með það. Til greina hefur komið að skoða möguleika á að breyta húsnæðinu í öldrunarheimili en til þess þarf töluverðar framkvæmdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert