Varað við stormi í fyrramálið

Hávaðaroki og rigningu spáð á morgun. Mynd úr safni.
Hávaðaroki og rigningu spáð á morgun. Mynd úr safni. mbl.is

Veðurstofan varar við stormi, meira en 20 metrum á sekúndu, og hvössum vindhviðum við fjöll suðvestan- og vestanlands í fyrramálið og fram yfir hádegi. Um leið er spáð mikilli rigningu. Því er vissara fyrir fólk að huga að lausum munum hjá sér.

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðaustanátt sunnan til, 15-23 m/s og rigningu sunnan- og vestanlands í fyrramálið en hægari og úrkomulausu fram eftir degi norðaustan til. Sunnan 13-18 m/s annað kvöld og úrkomuminna. Víða frost norðanlands í nótt en hiti á landinu verður 4 til 10 stig síðdegis á morgun.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vaxandi austlægri átt, suðaustan 13-20 m/s og rigningu í fyrramálið en 8-15 síðdegis og úrkomuminna. Hiti 6 til 10 stig á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert