Von er á frumvörpum frá ríkisstjórninni sem byggja á skýrslu nefndar sem hefur unnið að því að skoða áhrif hrunsins á reglur um endurskoðun og slíkt. Þetta kom fram í svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Sagði Árni að þegar hefði verið komið á lagabreytingum árið 2009 og reglur hertar í kjölfari hrunsins, þar sem m.a. voru settar reglur sem takmörkuðu getu banka til að lána í sjálfum sér og takmörkun á laun.
Hafði Pétur spurt í ljósi frétta af Max Bank málinu, þar sem „íslenska leiðin“ var farin hvort ekki væri ástæða til að breyta reglum um bókhald ofl. Hér á landi hefðu bankar sýnt mikið eigið fé sem hefði horfið eins og dögg fyrir fyrir sólu. Hvort ekki væri því ástæða til að endurskoða reglur um ársreikninga enda lykilatriði fyrir þá sem hyggjast leggja til hlutafé vegna fjárfestinga að þeir geti treyst því að upplýsingar í ársreikningum séu réttar og eigið fé hverfi ekki óvænt.
Sagði Árni að Íslendingar hefðu verið það óheppnir að okkar bankar hefðu verið reknir á þessu módeli en sú hefði raunin ekki verið alls staðar erlendis. Unnið væri að miklum endurbótum og á leiðinni væri skýrsla um frekari úrbætur á fjármálamarkaði.
Pétur benti á að í Danmörku hefði verið auðvelt að sjá hvernig fjármagn hefði farið í hring en ganga þyrfti lengra og setja reglur um gegnsæi hlutafélaga sem nái lengra en aðeins eina kynslóð til móður- eða dótturfélags.