Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi skipi sannleiksnefnd til að rannsaka málsmeðferð svonefndra Guðmundar- og Geirfinnsmála.
Lagt er til að sannleiksnefndin fari ítarlega yfir alla málsmeðferð og rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála frá 8. áratug 20. aldar. Í nefndinni verði lögfræðingur, sagnfræðingur og reynslumikill fjölmiðlamaður. Nefndin skili niðurstöðu til Alþingis eigi síðar en 1. október 2012.
Sannleiksnefndin á að hafa óheftan aðgang að öllum gögnum málanna og hún skal leitast við að kalla til alla þá sem enn lifa og komu við sögu í rannsókn og málsmeðferðinni.
Björgvin kvaðst fagna því að nokkru eftir að þingsályktunartillagan kom fram hafi innanríkisráðherra skipað starfshóp til að fara ofan í rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála á sínum tíma. Hann sagði að sannleiksnefndin muni hafa stærra hlutverk en starfshópurinn og niðurstaða hans muni gagnast sannleiksnefndinni.
Greinargerð með þingsályktunartillögunni lýkur á orðunum: „Að mati flutningsmanna tillögunnar hníga öll rök að því að farið verði rækilega ofan í alla þætti málanna og sannleikurinn um efnisatriði og málsmeðferð leiddur í ljós í eitt skipti fyrir öll.“