Vinnumálastofnun og EURES, evrópsk vinnumiðlun standa fyrir starfakynningu í Ráðhúsi Reykjavíkur næstkomandi föstudag frá klukkan 17 til klukkan 20 og laugardag kl. 12 - 18.
Einkum er eftirspurn eftir fólki úr byggingariðnaði svo sem byggingaverkfræðingum, húsasmiðum, rafvirkjum, málurum, járnamönnum, pípulagningarmönnum ofl. Einnig er eftirspurn eftir járniðnaðarmönnum hvers konar auk bifvélavirkja, vélvirkja og rútubílstjóra. Þá vantar bæði bókara og fjármálastjóra. Enn sem fyrr er mikil eftirspurn eftir bæði verkfræðingum og hjúkrunarfræðingum, segir í tilkynningu
Á kynningunni verða kynnt laus störf, tekið á móti umsóknum og veittar upplýsingar um starfs- og búsetuskilyrði víða í Evrópu. Einnig gefst fólki færi á að ræða beint og milliliðalaust við evrópska atvinnurekendur.
Kynnt verða laus störf í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Belgíu, Þýskalandi og Bretlandi.