Ekki hægt að skera meira niður án þess að leggja af þjónustu

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkið verður að ákveða hvaða þjónustu það ætlar að greiða fyrir hjá heilbrigðisstofunum enda ljóst að ekki verður lengur skorið niður í rekstri þeirra án þess að leggja af ákveðna þjónustu. Þetta kom fram í ræðu Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, á ráðstefnu á Grand Hóteli í dag um niðurskurð í velferðarkerfinu á vegum Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Landssambands helbrigðisstofnana og Félags forstöðumanna sjúkrahúsa.

Frummælendur á fundinum voru auk Björns Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á Akureyri, Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna, og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

Guðbjartur lagði í sínu erindi áherslu á að stjórnvöld hefðu í niðurskurðinum í heilbrigðisþjónustunni þrátt fyrir allt reynt eins og kostur hafi verið að verja hana með því að skera eins lítið niður og mögulegt hafi verið. Hann ræddi ennfremur um að ríkið þyrfti að vita hvaða þjónustu það væri að kaupa. Það færi bæði ekki saman endilega í þeim efnum kostnaður og gæði auk þess sem hugsanlegt væri að verið væri oft á tíðum að nota of dýr úrræði.

Aðrir ræðumenn fjölluðu um málið í meginatriðum á hliðstæðum nótum og Björn. Liggja þyrfti fyrir hvaða þjónustu ríkið vildi halda úti á heilbrigðisstofnunum. Ekki yrði skorið frekar niður án þess að leggja af ákveðna þjónustu. Margrét lagði áherslu á að þrátt fyrir niðurskurð krefðist ríkið eftir sem áður fullrar þjónustu sem þýddi aðeins meira álag á starfsfólk sem aftur leiddi meðal annars til aukinnar vanlíðanar, veikinda og erfiðleika við að manna stöður.

Þá gagnrýndi Jóna Valgerður stjórnvöld harðlega fyrir niðurskurð í velferðarmálum og ekki síst í málefnum sem snúa að öldruðum. Taldi hún verk stjórnarinnar í þeim efnum ekki koma heim og saman við það að um norræna velferðarstjórn væri að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert