Nefnd ákveði endurupptöku

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

Álfheiður Ingadóttir mælti í dag fyrir frumvarpi um breytt fyrirkomulag á afgreiðslu beiðna um endurupptöku dæmdra mála, þannig að óháð stjórnsýslunefnd taki ákvörðun um endurupptöku en ekki Hæstiréttur.  

 Í máli Álfheiðar kom fram að aðeins þrjár endurupptökubeiðnir af 36 sem Hæstarétti bárust á árabilinu 2000-2010 voru samþykktar, 32 var hafnað, ein var óafgreidd.  Afgreiðslutíminn var allt frá 26 dögum til 427 daga og niðurstaða Hæstaréttar hvergi birt opinberlega, að því er segir í tilkynningu frá Álfheiði.

Þá sé staðfest að dómarar Hæstaréttar sem dæmdu viðkomandi mál hafi í mörgum tilfellum komið að því að synja um endurupptöku. Í einu máli hafi allir þrír dómarar sem dæmdu málið komið að synjun um endurupptöku, í 16 málum einn dómari og í 5 málum tveir dómarar sem áður dæmdu málið. Aðeins í  10 málum höfðu þeir dómarar sem tóku ákvörðun um að synja um endurupptöku ekki dæmt viðkomandi mál á þessu 10 ára tímabili.  

Álfheiður segir þetta ekki eðlilega málsmeðferð. „Menn verða að geta treyst því að opinberar stofnanir, og þá ekki síst dómstólar, séu óvilhallir,“  sagði hún. „Enda þótt dómar Hæstaréttar eigi að heita endanlegir eru alltaf þau tilvik að óska þarf endurupptöku dæmds máls í ljósi nýrra gagna eða annarra lagaskilyrða. Þess vegna höfum við úrræði sem snúa að endurupptöku, enda snúast efnisreglur sem lúta að henni um mikilvæg mannréttindi: Þó að dómur sé fallinn getur verið nauðsynlegt að taka mál upp að nýju til að saklausir menn séu ekki dæmdir með röngu. En þá eiga ekki sömu menn að dæma aftur“. 

 Í frumvarpinu er ekki hróflað við lagaskilyrðum um endurupptöku skv. lögum um meðferð sakamála og meðferð einkamála, heldur aðeins málsmeðferðinni þannig að í stað Hæstaréttar sé það sérstök endurupptökunefnd, sem taki ákvörðun og hún lúti ákvæðum stjórnsýslulaga um hæfi og birti ákvarðanir sínar opinberlega. Er fyrirmyndin sótt til norskra laga og markmiðið að tryggja óhæði og gagnsæi, segir í tilkynningu Álfheiðar. Flutningsmenn ásamt henni á frumvarpinu eru Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert