Íslenskir embættismenn hafa iðulega túlkað reglur EES-samningsins hvað varðar styrki, samkeppni og fleiri þætti með strangari hætti en gert er innan annarra landa sem eiga beina eða óbeina aðild að samningnum, segir í greinargerð með þingsályktunartillögu sem nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram í gær. Árni Johnsen var fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Íslendingar kaþólskari en páfinn
Í greinargerðinni segir að Íslendingar hafi verið kaþólskari en páfinn í þessum efnum sem hafi verið til á margan hátt til mikils óhagræðis fyrir Ísland. Eigi þetta m.a. við hvað varðar reglur sem gilda um iðnað, flugrekstur, viðskipti og marga aðra þætti. Til að mynda hafi ýmis Evrópuríki styrkt hafnargerð og upptökumannvirki skipa verulega en túlkun íslenskra embættismanna er sú að slíkt sé stjórnvöldum með öllu óheimilt.
Efni þingsályktunartillögunnar snýr að því að óskað er eftir að gerð verði samanburðarrannsókn á túlkun íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim matskenndu reglum EES-samningsins er varða viðskipti, samkeppni og styrki í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum.
Túlkun eigi að taka mið af aðstæðum í hverju landi
Er í greinargerðinni sagt að túlkun EES-reglna geti miðast við aðstæður í hverju landi fyrir sig og íslensk stjórnvöld hafi oft horft framhjá slíku samanber „reglugerðarákvæði sem gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum, upptökumannvirki í höfnum landsins o.fl.“