Réttargeðdeildinni að Sogni lokað

Starfsemin mun flytjast á Klepp.
Starfsemin mun flytjast á Klepp. mbl.is/Sverrir

Ákveðið hefur verið að loka réttargeðdeildinni að Sogni 1. mars nk. og flytja starfsemina á Klepp. Þetta segir Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.

Þetta var tilkynnt á fundi með starfsmönnum deildarinnar að Sogni kl. 9 í morgun. Páll segir að störf þeirra, sem eru um það bil 30, verði lögð niður. Hann vonast hins vegar til þess að sem flestir starfsmenn muni sækja um ný störf á nýju deildinni.

Ákvörðunin var nýverið tekin í framkvæmdastjórn Landspítalans.

Páll segir í samtali við mbl.is að þarna slái menn tvær flugur í einu höggi. „Við náum að bæta öryggi og þjónustu við sjúklinga, en á sama tíma náum við nokkurri rekstrarhagræðingu. Þetta er hlutur sem við höfum faglega talið lengi mikilvægan og höfum ákveðið núna að fara í,“ segir Páll.

Hann segir að það sé falskt öryggi í því að hafa deildina á núverandi stað. Sogn sé í raun og veru gamalt barnaheimili. „Starfsfólkið hefur unnið frábært starf við að sinna sínum störfum þarna en húsnæðið er mjög óhentugt,“ segir Páll.

Á Kleppi sé sérhannað húsnæði fyrir geðdeild. Það sé rúmlega 800 fermetrar að stærð á einni hæð en deildin að Sogni sé hins vegar tæpir 600 fermetrar og á þremur hæðum.

„Með þessum flutningi náum við að fjölga strax um tvo til þrjú pláss og höfum alltaf möguleika á því að stækka meira,“ segir Páll, en réttargeðdeildin að Sogni er ætluð fyrir 7 sjúklinga.

Mótmæla ákvörðuninni harðlega

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga mótmæla harðlega ákvörðun forráðamanna Landspítalans að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni niður.  Segir í yfirlýsingu frá samtökunum að ákvörðunin sé illskiljanleg því ekki hafi verið sýnt fram á hagræði þess að flytja starfsemina á höfuðborgarsvæðið. Sparnaður sé í meira lagi vafasamur auk þess sem að fyrir liggi að leggja þurfi í stofnkostnað  til að tryggja deildinni þá umgjörð sem þurfi á nýjum stað.    

)Samtökin mótmæla tilflutningi starfa af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem er í hróplegri mótsögn við yfirlýsta byggðastefnu stjórnvalda. Á réttargeðdeildinni starfa nú um 30 starfsmenn með búsetu i Árborg, Hveragerði , Ölfusi og Flóahreppi og því um verulegt högg að ræða fyrir atvinnulíf þess svæðis,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert