Vandi Íslands sálfræðilegur

Steingrímur J. Sigfússon var gestur Stephen Sackur í viðtalsþættinum Hard …
Steingrímur J. Sigfússon var gestur Stephen Sackur í viðtalsþættinum Hard Talk á BBC í gær.

Vandamál Íslands eru í dag einungis að fjórðungi efnahagsleg, en 75% sálfræðileg og pólitísk. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í viðtalsþættinum Hard Talk í breska ríkissjónvarpinu, BBC, í gær.

Sjónvarpsmaðurinn Stephen Sackur benti á að horfur væru á 2,5% hagvexti á Íslandi sem margir innan Evrópusambandins myndu telja mikinn sigur við núverandi aðstæður. Hann spurði Steingrím m.a. hvernig á því stæði að andrúmsloftið á Íslandi væri svo neikvætt þegar í raun mætti halda því fram að Íslendingar hefðu sloppið með skrekkinn. „Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir algjöru fjármálahruni er efnahagurinn á uppleið og lífsgæði á góðu róli, en samt sem áður er almenningur reiður og fúll. Hvers vegna?“ spurði Sackur.

Steingímur sagði það góða spurningu en svarið fælist fyrst og fremst í því að hrunið hefði verið mikið áfall fyrir Íslendinga. Venjulegt fólk hefði þurft að líða fyrir það án þess að bera neina ábyrgð á því hvernig fór. „Þetta mun taka tíma, því þetta var gríðarlegt sálfræðilegt og pólitískt áfall fyrir Ísland [...] Eins og ég greini aðstæður í dag þá verður útlitið sífellt betra og betra efnahagslega, svo segja má að vandinn sé um 25% efnahagslegur en 75% sálfræðilegur og pólitískur.“

Þversagnakennd aðildarumsókn

Í viðtalinu vék Sackur einnig talinu að Evrópusambandinu og spurði Steingrím hvernig í veröldinni Íslendingar geti haldið aðildarumsókn sinni áfram á sama tíma og þeir neiti að fylgja reglum Evrópska efnahagsvæðisins og vísaði þar í Icesave deiluna.

Steingrímur svaraði því til að um væri að ræða ósamkomulag um túlkun reglnanna. Enginn væri að tala um að fylgja ekki reglunum heldur væri um lagalega deilu að ræða sem þyrfti að greiða úr. „Það segir hvergi að það sé ríkisábyrgð á bankainnistæðum  og ég er ekki viss um að Evrópuþjóðum myndi líka það vel ef dómstólar úrskurðuðu að svo væri.“

Sackur vakti máls á því að málið virtist æði þversagnakennt. Ísland virtist vera á batavegi vegna þess að það hefði getað greitt úr sínum málum sjálft með eigin gjaldmiðli og tekið ákvarðanir sem hefðu verið ómögulegar innan Evrópusambandsins. Skoðanakannanir virðist sýna að Íslendingar kæri sig ekki um að vera hluti af ESB og fjármálaráðherrann telji sjálfur persónulega að það væru mistök fyrir Ísland að ganga í ESB.  „Er það ekki svo að þú samþykktir umsóknina ekki vegna þess að þú hefðir trú á málstaðnum heldur vegna þess að þú vildir að þinn flokkur kæmist inn í samsteypustjórn. Að þetta var eintóm pólitík og þú hefur sjálfur enga trú á þessu?“  spurði Sackur.  

Steingrímur játaði því að hann persónulega og hans flokkur telji það ekki að öllu leyti hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. „En við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að svara þeirri spurningu og komast til botns í því hvernig framtíðarsamskiptum Íslands og Evrópusambandsins verður háttað.“ Hann sagði að ríkisstjórnin myndi fylgja umsókninni eftir til enda og láta svo þjóðina um að ákveða niðurstöðuna. Það væri lýðræðislegt ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert