Aflinn eykst

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum septembermánuði, metinn á föstu verði, var 0,8% meiri en í september 2010. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 1,0% miðað við sama tímabil 2010, sé hann metinn á föstu verði.


Aflinn nam alls 105.755 tonnum í september 2011 samanborið við 93.764 tonn í september 2010, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.

Botnfiskafli dróst saman um rúm 2.200 tonn samanborið við september 2010 og nam um 30.700 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 13.800 tonn, sem er aukning um 580 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 3.800 tonnum sem er um 700 tonnum minni afli en í september 2010. Karfaaflinn jókst um 200 tonn samanborið við september 2010 og nam um 4.800 tonnum. Um 3.800 tonn veiddust af ufsa sem er tæplega 2.100 tonnum minni afli en í september 2010. Um 4.600 tonn veiddust af öðrum botnfiskafla, sem er samdráttur um tæp 300 tonn frá september 2010.

Rúmum 71.200 tonnum var landað af uppsjávarafla í september síðastliðnum samanborið við um 57.500 tonna afla í september 2010. Þar af var 48.400 tonnum landað af síld, sem er um 6.500 tonna aukning frá fyrra ári. Tæp 20.900 tonn veiddust af makríl samanborið við 13.500 tonn í september 2010.

Flatfiskaflinn var tæp 2.300 tonn í september 2011 sem er 245 tonnum meiri afli en í september 2010. Skel- og krabbadýraafli nam um 1.100 tonnum sem er nær sama magn og í september 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert