Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Jóni Bjarka Magnússon, blaðamann DV, til að greiða konu 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ærumeiðandi ummæla, og 750 þúsund krónur í málskostnað. Á annan tug ummæla voru þá dæmd dauð og ómerk. Þá segir í dómnum að DV beri að birta forsendur og niðurstöður dómsins í næsta tölublaði.
Um var að ræða umfjöllun dagblaðsins um nágrannaerjur í Aratúni í Garðabæ sem birtist í september 2010. Meðal annars var vísað til dóms sem konan hlaut árið 1989 og segir héraðsdómur það einkar ósmekklegt af blaðamanni „að vísa til dóms er stefnandi hlaut árið 1989 vegna atburða sem áttu sér stað tveimur árum áður. Í tilviki stefnanda á dómurinn ekkert erindi við almenning í dag, né er hann innlegg í umfjöllun um stefnanda, nema þá til að sverta orðspor hennar.“
Einnig segir að við ákvörðun bóta hafi verið litið til þess að blaðamaðurinn virðist hafa tvíeflst í fréttaflutningi sínum eftir að konan krafðist afsökunar og leiðréttingar á ummælum í blaðinu.