„Sú krísa sem nú geisar á heimsmörkuðum er um margt ólík fyrri fjármálakrísum,“ segir í markaðspunktum greiningadeildar Arion banka í dag. Fyrri fjármálakrísur í þróuðum löndum hafi í flestum tilfellum verið að rekja til slæmra útlána í bankakerfum á meðan krísur í þróunarlöndum hafi allajafna átt uppruna sinn í slæmri hagstjórn.
„Sú fjármálakrísa sem nú gengur yfir er þó af öðrum toga því margir þættir spila saman. Helsta atriðið er dvínandi trú fjárfesta á því að evrusvæðið lifi af í núverandi mynd og að nokkur evruríki nái ekki að greiða skuldir sínar að fullu til baka,“ segir í greiningunni. Í kjölfarið gæti skapast atburðarás efnahagshruns í líkingu við það sem gerðist á árunum 2007-2009. Lækkun vísitalna nú sé til að mynda keimlík því sem þá hafi verið raunin.
„Evrópski Seðlabankinn virðist ekki líklegur til stórræða en það er deginum ljósara að hann vill vernda sjálfstæði sitt og sneiðir því fram hjá því að taka ákvarðanir sem eru að hluta til pólitískar. Leiðtogar Evrópu virðast einnig vera í miklum vanda við að finna lausn á skuldavanda evrusvæðisins þar sem ekki er vilji (m.a. hjá almenningi) fyrir því að auka samþættingu ríkjanna,“ segir ennfremur.
Versta kreppa síðan 1929
Fram kemur að efnahagkreppan sem nú geysi í heiminum sé sú versta síðan í kreppunni miklu sem hófst árið 1929 og hún hefði mögulega orðið enn verri ef bandarísk stjórnvöld hefðu ekki tekið jafn fast í taumana í efnahagsmálum og þau hafi gert. „Nú er staðan önnur því pólitísk óeining og skuldastaða ríkja í Evrópu gerir það að verkum að enginn raunverulegur lánveitandi til þrautavara er til staðar ef allt skyldi fara á versta veg,“ segir í greiningunni.
Að lokum segir að áhugavert verði að sjá hvort ríkjum Evrópusambandsins takist að afstýra öðru hruni líkt og átti sér stað á árunum 2007-2009. „Einkum verður fróðlegt að sjá hver áhrifin af greiðsluþroti Grikklands verða, ef af því verður – en segja má útfrá verðlagningu á skuldatryggingum Grikklands að greiðslufall landsins sé óhjákvæmilegt – og því mætti fræðilega segja að áhrif af greiðsluþroti Grikklands ættu að vera takmörkuð. Sagan gefur þó ótvírætt til kynna að ekki sé búið að sjá fyrir endann á öllum þeim hliðaráhrifum sem vænt greiðslufall Grikklands gæti haft í för með sér.“