Skráð atvinnuleysi í september 2011 var 6,6 % en að meðaltali voru 10.759 atvinnulausir í september og fækkaði atvinnulausum um 535 að meðaltali frá ágúst eða um 0,1 prósentustig.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 249 að meðaltali og konum um 286. Atvinnulausum fækkaði um 379 á höfuðborgarsvæðinu og um 156 á landsbyggðinni.
Atvinnuleysi mælist 10,7% á Suðurnesjum
Atvinnuleysið var 7,6% á höfuðborgarsvæðinu en 4,9% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 10,7%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,1%. Atvinnuleysið var 6,4% meðal karla og 6,8% meðal kvenna.
Alls voru 11.487 manns atvinnulausir í lok september. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 9.675. Fækkun atvinnulausra í lok septembermánaðar frá lokum ágúst nam 445, en 272 færri karlar voru á skrá og 173 færri konur m.v. ágústlok. Á landsbyggðinni fækkaði um 88 og um 357 á höfuðborgarsvæðinu.
4.457 án atvinnu í meira en eitt ár
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 6.842 og fækkar um 686 frá lokum ágúst og er um 60% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok september. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.645 í lok ágúst í 4.457 í september eða um 188.
Alls voru 1.774 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok september en 1.858 í lok ágúst og fækkar þeim um 84 frá ágústlokum og eru um 15,4% allra atvinnulausra í september. Í lok september 2010 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.996.
Alls voru 1.844 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok september, þar af 1.074 Pólverjar eða um 58% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingaiðnaði eða 364.
Alls voru 1.844 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok september, þar af 1.074 Pólverjar eða um 58% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingaiðnaði eða 364.