Fékk bílinn borgaðan tvisvar

mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur dæmt 31 árs gamla konu 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ólögmæta ráðstöfun á fé en bílaumboð greiddi andvirði bíls, sem það leysti til sín, tvívegis inn á bankareikning konunnar.

Konan var einnig dæmd til að endurgreiða bílaumboðinu Brimborg 810 þúsund krónur.

Í Héraðsdómi Vesturlands var fyrrverandi eiginmaður konunnar sömuleiðis dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi en hann áfrýjaði ekki dómnum.

Konan var sakfelld fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á féð, sem Brimborg lagði ranglega inn á bankareikning hennar árið 2006 en konan tók fjárhæðina út af reikningum sama dag og millifærði hana inn á tvo aðra reikninga, þar af annan í eigu fyrrverandi eiginmanns síns.

Í dómi Hæstaréttar segir m.a., að miklar breytingar hafi orðið á viðskiptum frá því almenn hegningarlög voru sett með tilkomu rafrænna viðskiptahátta. Verði að telja eðlilegt, miðað við upphaflegt markmið lagaákvæðisins, að skýra það svo að það nái til ólögmætrar ráðstöfunar á fé, sem ranglega hefði borist viðtakanda, án tillits til þess hvort um væri að ræða reiðufé eða fjárhæð sem lögð hefði verið inn á bankareikning.

Einn hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði og vildi sýkna konuna. Taldi hann m.a. ekki sannað að konan hefði ætlað að fremja  auðgunarbrot þegar hún millifærði af reikningi sínum en konan bar, að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því hvaðan þessir peningar komu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert