„Við eigum ekki að láta staðar numið hér varðandi yfirfærslu verkefna,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ávarpi við setningu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun. Nefndi hún velferðarþjónustu og framhaldsskólana sem möguleika í því sambandi.
„Marka þarf skýrar línur um verkaskiptinguna og horfa með opnum huga á hvaða opinber þjónusta er nærþjónusta og hvaða verkefni falla að öðrum verkefnum sveitarfélaga. Margir staldra eflaust við framhaldsskólana, með samfellu í skólastarfi í huga. Ég bendi einnig á tækifæri sem kunna að leynast í því að ríki og sveitarfélög, eitt, fleiri eða öll geri með sér þjónustusamninga þannig að sveitarfélögin taki að sér að veita tiltekna velferðarþjónustu í umboði ríkisihns,“ sagði hún.
Forsætisráðherra fjallaði um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga og um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í ávarpi sínu og sagði að góð reynsla væri af yfirfærslu stórra málaflokka til sveitarfélaganna.
Fáir málaflokkar væru jafn vel til þess fallnir að færast til sveitarfélaga og málefni fatlaðra og aldraðra. Hraða þyrfti undirbúningi að yfirfærslu málefna aldraðra eins og kostur væri á.
Jóhanna benti á að árið 2006 hafi sveitarfélög verið með um 30% opinberra útgjalda en ríkið um 70%. Dönsk sveitarfélög ráðstafi hins vegar um 65% opinberra útgjalda í Danmörku en ríkið 35%.
Sagði hún að til að sveitarfélög gætu axlað ábyrgð á stórum málaflokkum þurfi þau að hafa fjárhagslega burði og getu er varðar stjórnsýslu o.fl. Hvatti hún minni sveitarfélög til að íhuga kosti sameiningar.