Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa skilar þjóðarbúinu bæði beinum og óbeinum tekjum samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.Stofnunin telur að tekjur tilkomnar vegna Hörpu séu á bilinu 1 til 1,4 milljarðar króna á ári. Tekjurnar geti þó orðið allt að 3 milljarðar króna á ári ef vel gangi að kynna húsið og fá stórar ráðstefnur til landsins, segir í fréttatilkynningu.
Tekjur af 12.000 útlendingum sem kæmu sérstaklega vegna ráðstefna í Hörpu gætu numið á bilinu 2,1-3 milljörðum króna á ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og er fyrsti liður í fjölþættri rannsókn.
Hið opinbera greiðir 900 milljónir á ári vegna lána út af Hörpu
Eitt af því sem gjarnan er rætt í umræðum um tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu er hár byggingarkostnaður hússins, en íslenska ríkið og Reykjavíkurborg greiða liðlega 900 milljónir króna á ári vegna lána sem tekin voru til að klára byggingu hússins. Minna hefur verið rætt um þær tekjur sem húsið skapar, segir í skýrslunni.
Fyrir allnokkru var tekin ákvörðun um að fengnir yrðu færustu sérfræðingar til að meta áhrifin af tilkomu Hörpu á komur ferðamanna hingað til lands og til að leggja mat á þann tekjuauka sem til yrði vegna þeirra.
Skýrsla Hagfræðistofnunar um væntanlegar gjaldeyristekjur vegna Hörpu er fyrsta skrefið, en stefnt er að því að gera mælingar sem miða að því að greina nákvæmlega hversu margir komi sérstaklega hingað til lands vegna viðburða og ráðstefna í Hörpu eða vegna umfjöllunar um húsið í erlendum fjölmiðlum.
Telja eðlilegt að álykta að ráðstefnugestir eyði meira en aðrir
„Engin sérstök ráðstefnubygging hefur verið reist hérlendis heldur hafa ráðstefnur yfirleitt verið haldnar á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Þá hafa ráðstefnur og vörukynningar verið haldnar í íþróttahúsum. Harpa gæti tekið á móti 1.000-1.500 manna ráðstefnum nokkuð auðveldlega.
Til samanburðar má lauslega áætla að Hilton Reyjavík Nordica og Grand Hótel geti haldið 600-800 og 500-600 manna ráðstefnur. Þegar hafa verið bókaðar og staðfestar 24 ráðstefnur til ársins 2015 þar sem meginþorri þátttakenda eru erlendir gestir. Gert er ráð fyrir að yfir 14.000 þátttakendur sæki umræddar ráðstefnur. Gert er ráð fyrir því að hver ráðstefnugestur dvelji að vetri til 4,6 daga á landinu en 9,9 daga að sumri til.
Einnig er miðað við að gjaldeyristekjur af hverjum ráðstefnugesti geti verið á bilinu 45 til 65 þúsund kr. á hverjum degi. Er hér miðað við heildarkostnað vegna uppihalds, gistingar og flugfargjalds. Umræddar fjárhæðir eru ögn hærri en meðalneysla ferðamanna en í samræmi við tölur frá Sameinuðu þjóðunum sem og tölur frá ráðstefnum á Norðurlöndunum.
Eðlilegt er talið að gera ráð fyrir að ráðstefnugestir eyði að jafnaði meira en hinn dæmigerði ferðamaður. Með tilkomu tónlistar- og ráðstefnuaðstöðunnar í Hörpu opnast nýir möguleikar í ráðstefnuhaldi hér á landi, t.a.m. fyrir markaðssetningu til stærri hópa," segir í fréttatilkynningu.