Í einangrunarklefa í 27 ár

Sighvatur Björgvinsson.
Sighvatur Björgvinsson.

Áður en réttargeðdeildin á Sogni var stofnuð hér á landi fyrir tveimur áratugum hafði íslenskur maður verið vistaður á  réttargeðdeild í Bretlandi í einangrunarklefa 27 ár.

Þetta kom fram í viðtali við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

Sighvatur sagði, að maðurinn hefði verið sendur út til Bretlands til vistunar þar sem engin úrræði voru hér á landi. Sagðist Sighvatur telja að eini Íslendingurinn, sem heimsótti manninn til Bretlands hafi verið Ólafur Ólafsson, þáverandi landlæknir.

„Þessi maður var ekki mæltur á enska tungu, og hann var þarna burtu frá sínu eigin landi í 27 ár. Bretar sögðu mér, að þeir skildu ekki hvernig Íslendingar hugsuðu að geta látið umkomulausan ungan mann vera þarna í 27 ár án þess að spyrjast fyrir um hann. Þegar hann kom heim til vistunar á Sogni þá sagði Bogi Melsted (þáverandi yfirlæknir í Svíþjóð) mér það að maðurinn væri það illa farinn eftir þessa löngu einangrunarvist, að hann ætti aldrei afturkvæmt út í eðlilegt líf; hann væri stofnanamatur það sem eftir væri," sagði Sighvatur.

Rifjað var einnig upp í Kastljósi, að íbúar í Ölfusi voru ekki sáttir við það á sínum tíma, að réttargeðdeild yrði á Sogni. Nú hefur verið ákveðið að leggja deildina niður og vista ósakhæfa afbrotamenn þess í stað á Kleppsspítala.

Sighvatur sagði að það hefði verið hans fyrsti kostur að Kleppsspítali tæki við þessu fólki en því hefðu yfirlæknar þar harðneitað. Síðan hefði fundist húsnæðið á Sogni þar sem SÁÁ hafði rekið sjúkrastöð en var að hætta þeim rekstri. Hefði heilbrigðisráðuneytið samið um kaup á húsinu og látið breyta því og síðan var Bogi Melsted fenginn til að koma heim frá Svíþjóð til að veita deildinni forstöðu því enginn hér á landi vildi taka við henni.

Sighvatur sagði, að harkaleg mótmæli hefðu verið í héraðinu gegn réttargeðdeildinni. „Það erfiðasta var, að einn ágætur geðlæknir ásamt vinkonu sinni, þekktri konu, gengu þarna um í næsta nágrenni við Sogn til að lýsa því fyrir fólkinu sem þar bjó hvernig geðsjúkir afbrotamenn gætu beitt ofsaverkum gagnvart saklausu fólki. Þetta var svo alvarlegt að Ólafur Ólafsson landlæknir og Matthías (Halldórsson) aðstoðarlandlæknir þurftu tvívegis að feta í fótspor þessa fólks til að ræða við fólkið fyrir austan og róa það," sagði Sighvatur.

Þingmenn Suðurkjördæmis gagnrýndu harðlega á Alþingi í gær að til stæði að leggja réttargeðdeildina á Sogni niður. Um það sagði Sighvatur, að heilbrigðismál væru fyrst og fremst ætluð til að aðstoða sjúkt fólk en ekki til að skapa atvinnu. En nú hefðu hvorirtveggja skipt um skoðun. Geðlæknarnir vildu fá þetta fólk til sín og fólkið sem býr í nágrenni við Sogn vilji halda starfseminni þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert