Líknardeildinni á Landakoti lokað

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Líknardeild öldrunardeildar Landspítalans á Landakoti verður lokað og starfsemi hennar færð til líknardeildarinnar í Kópavogi. Talið er að breytingin muni spara 50 milljónir króna og er hún liður í niðurskurðarferli Landspítalans vegna fjárlaga næsta árs.

Framlög til spítalans eru í fjárlagafrumvarpi skorin niður um 630 milljónir króna og talið er að það muni hafa áhrif á um 90 störf innan spítalans. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir á öldrunardeild Landspítalans, segir lokun líknardeildarinnar ákveðið afturhvarf til fortíðar.

Á líknardeildinni á Landakoti eru níu sjúkrarúm og er þar veitt lífslokameðferð fyrir aldraða með líknandi nálgun. "Þarna er verið að fækka plássum og fólk fer yfir í ósérhæfðari úrræði," segir hann. "Og þetta er mjög veikt fólk við lok lífs sem þarf virkilega á sérhæfðri meðferð að halda. Þörfin er mjög mikil."

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að búið sé að ræða við mjög margar stórar einingar innan Landspítalans og kynna fyrir þeim fyrirhugaðar breytingar, sem séu erfiðar og viðkvæmar. Allt verði þó tilkynnt formlega í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert