Sakhæfi er lögfræðilegt hugtak

Lögregla að störfum við húsið þar sem Hannes Þór Helgason …
Lögregla að störfum við húsið þar sem Hannes Þór Helgason fannst látinn á síðasta ári.

Sakhæfishugtakið er lögfræðilegt en ekki læknisfræðilegt hugtak. Því er það alltaf á valdi dómstóla að ákveða hvort að maður telst sakhæfur eða ekki, að sögn Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns.

Sem kunnugt er komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dag að Gunnar Rúnar Sigurþórsson, banamaður Hannesar Þórs Helgasonar,  hefði verið að því marki fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann réðst að Hannesi Þór að hann teldist sakhæfur.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar Þór væri ósakhæfur. Vísaði dómurinn til matsgerðar og yfirmats þriggja dómkvaddra geðlækna. Þeir komust allir að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar hefði á verknaðarstundu verið haldinn geðveiki í merkingu almennra hegningarlaga.

„Það hefur alltaf verið tilhneiging til þess að líta fram hjá því að þetta sakhæfishugtak er lögfræðilegt hugtak en ekki læknisfræðilegt hugtak,“ sagði Ragnar.

„Að lokum er það alltaf á valdi dómstólanna að ákveða hvort maður telst sakhæfur eða ekki. Í þessu tilviki komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að svo væri með hliðsjón af öllum atvikum og frekar sannfærandi rökstuðningur fyrir því að mínu viti.“

Ragnar kvaðst ekki hafa neinar tölur eða upplýsingar um hvort það væri algengt að úrskurði um sakhæfi manns væri snúið við með svipuðum hætti og Hæstiréttur gerði í þessu tiltekna máli. Hann sagði lögmenn almennt þekkja það að þetta geti gerst og það komi því ekki á óvart.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert