Samstaða mikilvæg

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ernir Eyjólfsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að það sé hans skoðun að við aðstæður líkt og þær sem nú eru á Íslandi sé mikilvægt að samstaða ríki meðal félaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Þetta kom fram í ávarpi Gylfa á þingi sambandsins í dag.

Eigum ekki að láta óbilgjarna spunataktík og útúrsnúninga hrekja okkur af leið

„Þó ég sé þeirrar skoðunar að við eigum sífellt að vera að spyrja okkur sjálf um tilgang, hlutverk og baráttuaðferða verkalýðshreyfingarinnar, er ég einnig sannfærður um að það er einmitt við svona aðstæður sem bæði mikilvægi þessarar hreyfingarinnar okkar og nauðsyn órofa samstöðu innan okkar raða verður ljós ef okkur á að takast að mæta þeim miklu væntingum sem til okkar eru gerðar.

Þau verkefni sem við settum okkur í þessum hrunadansi var annars vegar að treysta stöðu þeirra tekjulægstu og verja hag heimilanna og hins vegar að leggja grunn að endurreisn okkar lífskjara með uppbyggingu atvinnulífsins til að skapa fleiri störf og auka tekjur.

Þessi vegferð hefur ekki verið auðveld og við höfum mátt sitja undir harðri gagnrýni um ýmis þau mál sem við höfum staðið fyrir. Á sama tíma og við eigum að fagna því að fá uppbyggilega og nauðsynlega gagnrýni á okkar störf bæði innan úr okkar hreyfingu og frá samfélaginu eigum við ekki að láta óbilgjarna spunataktík og útúrsnúninga hrekja okkur af leið. Við eigum ekki að láta slíkan málflutning aftra okkur frá því að axla ábyrgð og taka þátt í samstarfi ef það má vera til þess að hafa jákvæð áhrif á hag og stöðu okkar félagsmanna," sagði Gylfi.

Gylfi sagði að Alþýðusambandið hefur verið og er þeirrar skoðunar að affærasælast sé að mynda breiða samstöðu á vinnumarkaði og á vettvangi stjórnmála til að leiða þjóðina í gegnum þetta óveður.

„Það er engin launung á því að mikillar tortryggni gætti meðal fulltrúa í samninganefndum aðildarsamtaka ASÍ og reyndar einnig innan raða atvinnurekenda í garð ríkisstjórnarinnar eftir vanefndirnar með framgöngu Stöðugleikasáttmálans, einkum er varðar átak í atvinnumálum.

ASÍ beitti sér fyrir því að fá fram skuldbindingar af hálfu ríkisstjórnarinnar bæði um samstarf og samráð við stefnumótun í mikilvægum málaflokkum og skýrar tímasetningar um hvenær stefnumiðin lægju fyrir. Þannig átti að endurskoða efnahagsstefnuna, þar sem vissulega yrði byggt á þeim árangri sem náðst hefur í stjórn ríkisfjármála en áherslan í samstarfinu myndi færast yfir á önnur brýn úrlausnarefni. Þannig þarf að takast á við mótun fjárfestingaráætlunar, sérstakrar hagvaxtaráætlunar og umfram allt stefnu stjórnvalda í vaxta-, gengis- og verðlagsmálum. Samkomulag var um að þetta ætti að liggja fyrir í lok maí og júní áður en við tæjum endanlega afstöðu til gildistöku kjarasamninganna, en hefur ekki ennþá séð dagsins ljós," sagði Gylfi.

Ræða Gylfa í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert