Skaðar okkur öll að bíða

Fjöldi sveitarstjórnarmanna sitja fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem hófst á Hilton Nordica …
Fjöldi sveitarstjórnarmanna sitja fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem hófst á Hilton Nordica hótelinu í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði við setningu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun að bið eftir niðurstöðu í sjávarútvegsmálum bitnaði á öllu þjóðfélaginu. „Klárið það verk sem þið hófuð fyrir þremur árum.  Það skaðar okkur öll að bíða svona lengi eftir niðurstöðu,“ sagði hann og beindi orðum sínum til stjórnvalda.

„Það er ótrúlegt að upplifa það að undirstöðuatvinnuvegur sem hefur góðar tekjur og mikla fjárfestingargetu sé búinn að vera í frosti í 3 ár vegna þess að ekki er búið að ákveða framtíðarkerfi í fiskveiðistjórnun. Þetta bitnar á öllu þjóðfélaginu og allra fyrst á viðkvæmum samfélögum vítt og breitt um landið, sem eiga nánast allt sitt undir sjávarútveginum,“ sagði Halldór. Hann sagði að framkvæmdaleysi og bið eftir niðurstöðu í sjávarútvegsmálum væru nánast daglegar fréttir.

Stofnun neyðarsjóðs kemur til greina

Fram kom í máli Halldórs að sveitarfélögin hafa óskað eftir því við fjárlaganefnd að tryggð verði a.m.k. 200 milljóna kr. aukafjárveitingu sem aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. En gegn mótmælum Sambands sveitarfélaga hafi innanríkis- og fjármálaráðherra ákveðið að verja 300 milljónum af 700 milljóna kr. aukaframlagi til sveitarfélagsins Álftaness. Eftir stæðu þá 400 millj. kr. til að mæta fjárhagserfiðleikum annarra sveitarfélaga sem þurfi sárlega á þessum fjármunum að halda.

Halldór sagði að menn þyrftu að velta fyrir sér öðrum úrræðum og varpaði fram þeirri hugmynd að stofnaður verði neyðarsjóður fyrir sveitarfélög sem lenda í miklum greiðslu- og rekstrarvandræðum. „Mér finnst koma til greina að setja upp sérstakan neyðarsjóð sem hugsaður er fyrir slík tilfelli. Greiðslur úr honum yrðu háðar mjög þröngum skilyrðum, t.d. um fjárhagsstjórn, álag á útsvar og fleira. Fjármögnun í sjóðinn gæti verið í gegnum Jöfnunarsjóð, ríkissjóð og jafnvel fleiri sem eiga hagsmuna að gæta,“ sagði Halldór.

Hærri skuldir 2010 en á árinu 2009

Halldór gagnrýndi fjármálaráðherra í setningarávarpi sínu fyrir að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ein og tiltölulega óstudd tekið á sig alla erfiðleikana við uppbyggingu eftir hrunið. Halldór sagði að á sveitarstjórnarstiginu hafi kjörnir fulltrúar, sem séu miklu nær sínum umbjóðendum, þurft að taka verulega sárar og erfiðar ákvarðanir. „Af þessum sökum finnst mér ekki boðlegt að bera svona málflutning á borð fyrir okkur eins og fjármálaráðherra gerir,“ sagði Halldór.

Fram kom í máli Halldórs að fjárhagsstaða sveitarfélaganna væri ærið misjöfn. Fyrirsjáanlegt væri að miklar skuldir væru komnar til að vera. „Við erum að sjá hærri skuldir 2010 en 2009 vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki náð almennilega vopnum sínum til að greiða niður skuldir en fyrst og fremst vegna þess að skuldbindingar, sem áður voru utan efnahags, eru nú komnar inn í efnahagsreikninga sveitarfélaganna,“ sagði Halldór og bætti við að ríkissjóður gæti lært af sveitarfélögunum hvað þetta varðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert