Of mikil áhersla hefur verið lögð á persónur í umræðum um efnahagshrunið haustið 2008, ásamt því sem umræðan einskorðaðist við Ísland fyrstu misserin eftir hrun í stað þess að taka stöðu efnahagsmála á alþjóðavettvangi með í reikninginn. Þetta er mat Ásgeirs Jónssonar, fv. hagfræðings hjá Kaupþingi.
Ásgeir lýsti yfir þessari skoðun sinni á málþingi um Jón Sigurðsson í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag en hátíðin var á vegum Hins íslenska bókmenntafélags.
Meðal annarra ræðumanna voru Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ, og Sigurður Líndal, forseti bókmenntafélagsins.
Taldi Ásgeir að setja þyrfti efnahagshrunið í stærra samhengi í hagsögu Íslands.
Ísland hefði í raun glatað efnahagslegum stöðugleika þegar landið skildi við Danmörku með stofnun lýðveldis á Þingvöllum fyrir 67 árum. Þá væru 30% neikvæðir raunvextir á sjöunda áratugnum dæmi um þá efnahagslegu óstjórn sem hér hefði viðgengist á lýðveldistímanum.
Með ummælum sínum slær Ásgeir um margt nýjan tón í umræðum um orsakir hrunsins en tími málsvarnarinnar er sem kunngt er að fara í hönd, leiði rannsóknir embættis sérstaks saksóknara á annað borð til ákæra.