Í fjármálaráðuneytinu eru nú í undirbúningi breytingar við innheimtu útsvars sem ganga út á að útsvar verði framvegis greitt til sveitarfélaga eftir búsetu launþegans á hverjum tíma. Í núgildandi lögum greiða menn útsvar til sveitarfélags þar sem þeir áttu lögheimili 31. desember árið á undan.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra greindi frá þessu í ávarpi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. „Ég vona að litið verði á þetta sem framfaraskref í þessum samskiptum [ríkis og sveitarfélaga] og að við eigum að halda áfram að rækta þau og hafa þau góð," sagði Steingrímur.