Ellefu þingmenn hafa beðið efnahags- og viðskiptaráðherra um að taka saman skýrslu um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna.
Þingmennirnir eru þau Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Björn Valur Gíslason, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Mósesdóttir, Mörður Árnason, Pétur H. Blöndal, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari og Þráinn Bertelsson.
Þeir óska eftir því að efnahags- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna.
Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
- Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands árin 2005–2008?
- Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Arion banka, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans 2009–2011 (júlíloka)?
- Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers skilanefndarmanns og slitastjórnarmanns Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands frá því að þessar nefndir/stjórnir voru settar á laggirnar til júlíloka 2011?
- Hvernig eru laun bankastjóra, bankaráða, skilanefnda og slitastjórna ákveðin?