44 útskrifaðir af 50 á Sogni

Réttargeðdeildin á Sogni í Ölfusi.
Réttargeðdeildin á Sogni í Ölfusi. mbl.is/Sigurður Jónsson

Starfsmenn réttargeðdeildarinnar á Sogni segja að á þeim 19 árum sem réttargeðdeildin á Sogni hefur verið starfrækt hafi 50 sjúklingar verið lagðir inn og hafi 44 verið útskrifaðir með góðum árangri. Enginn þeirra hefur verið endurdæmdur. Þetta kemur fram í ályktun frá fundi starfsmanna að Sogni sem eru félagsmenn í SFR.

„Í fyrsta lagi hefur komið fram í umræðunni um flutning deildarinnar að fagleg rök liggi þar að baki. Félagsmenn SFR vilja benda á að á þeim 19 árum sem réttargeðdeildin á Sogni hefur verið starfrækt hafa 50 sjúklingar verið lagðir inn og hafa 44 verið útskrifaðir með góðum árangri. Enginn þeirra hefur verið endurdæmdur og telst það að mati starfsmanna til marks um hið faglega og góða starf sem þar fer fram. Hundrað prósent árangur hlýtur að segja eitthvað um hið faglega starf sem fram fer á Sogni.

Í öðru lagi hafa starfsmenn á Sogni afar mikla reynslu  en þar er starfsaldur hár og þekking á málefnum þeirra sem þangað þurfa að leita afar mikil og mikilvæg fyrir meðferð sjúklinga. Á Sogni er til staðar sérfræðireynsla og þekking á meðferð ósakhæfra afbrotamanna sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi.

Umhverfi réttargeðdeildarinnar er einstakt og njóta sjúklingar þess í meðferð sinni. Haldið hefur verið fram að húsakynni hennar séu í slæmu ástandi og vilja starfsmenn benda á að ástand þeirra sé að engu leyti  verra en húsakynna geðsviðs Landspítala á Kleppi. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu á Sogni og þjónar það ágætlega sínu hlutverki þó svo að það sé alltaf rými fyrir endurbætur.

Við mótmælum því þessum rökum algjörlega og drögum í efa fullyrðingar um að þar liggi að baki ákvörðun sem byggð er á faglegum forsendum en það er eins og áður sagði algjörlega í mótsögn við þann árangur sem hefur náðst í meðferð sjúklinga á Sogni.

Félagsmenn SFR skora á ráðherra og stjórnendur Landspítala Háskólasjúkrahúss að endurskoða þessa ákvörðun," segir í ályktun starfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert