Náttúruvernd er aðal viðfangsefni Umhverfisþings sem haldið er á Selfossi í dag. Um 300 manns mættu til þingsins í morgun, samkvæmt frétt umhverfisráðuneytisins.
Svandís Svavarsdóttir setti þingið og rakti hún hvernig náttúruverndarmál hafa eflst á undanförnum misserum. Hún „sagði Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, sem er til umræðu á þinginu, ryðja brautir í nýjum og vönduðum vinnubrögðum við undirbúning nýrrar löggjafar hér á landi,“ samkvæmt frétt ráðuneytisins.
Ella Maria Bisschop-Larsen, formaður Dönsku náttúruverndarsamtakanna, var heiðursgestur Umhverfisþings. Dönsku náttúruverndarsamtökin fagna 100 ára afmæli á þessu ári.
Bisschop-Larsen fjallaði m.a. um hve mikilvægu hlutverki náttúruverndarsamtök gegni við að veita stjórnvöldum aðhald. Þá ræddi hún um friðlýsingar og hvernig Dönsku náttúruverndarsamtökin hafa gegnt virku hlutverki við friðlýsingar í Danmörku.