Stjórn fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga harmar mjög fyrirhugaða lokun á líknardeild aldraðra á Landakoti, L-5.
Í samþykkt félagsins segir, að umönnun við lífslok sé flókin og viðkvæm. Starfsfólk deildar L-5 hafi unnið ómetanlegt starf í þágu deyjandi aldraðs fólks og fjölskyldna þeirra. Þeirri sérþekkingu og reynslu sem hefur skapast á deildinni sé nú mikil hætta búin og fyrirséð að þjónusta við þennan sjúklingahóp muni skerðast verulega.
„Stjórn fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga vonast til að hægt verði að finna aðrar leiðir til að mæta auknum sparnaðarkröfum en þær að skerða þjónustu við þessa aðila sem eru þess ekki megnugir að bera hönd fyrir höfuð sér,“ segir í samþykkt félagsins.