Rækju vex fiskur um hrygg

Rækjulöndun á Bíldudal. Myndin er úr myndasafni.
Rækjulöndun á Bíldudal. Myndin er úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Stofnvísitala rækju í Skjálfanda hefur hækkað töluvert frá fyrri árum og stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mælist nú yfir meðallagi. Þessar niðurstöður komu í ljós við árlega stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar á grunnslóð vestan- og norðanlands.

Könnuð voru sex svæði að þessu sinni. Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi og Öxarfjörður. Stofnvísitala rækju í Skjálfanda hækkaði talsvert frá fyrra ári. Uppistaðan var tveir sterkir árgangar, eins og tveggja ára, en lítið mældist af stórri rækju.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að veiðar hefjist ekki á Skjálfanda vegna þess hve rækjan er smá. Hins vegar þykir mikið magn ungrækju tvö ár í röð gefa tilefni til bjartsýni um að rækjustofninn þarna sé að styrkjast.

Rækja hefur ekki verið veidd í Ísafjarðardjúpi frá 2003. Stofnvísitala rækju þar mældist nú yfir meðallagi. Útbreiðsla rækjunnar takmarkaðist við Inndjúpið og Skötufjörðinn. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að opnað verði fyrir rækjuveiðar í Djúpinu með 1.000 tonna aflamarki.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var lægri nú en í fyrra og reyndust litlar breytingar hafa orðið á stærð rækjustofna á öðrum svæðum sem mæld voru.

Almennt var meira af þorsk- og ýsuseiðum en á undanförnum árum. Á rækjusvæðunum í Arnarfirði var mikið af slíkum seiðum. Þess vegna leggur Hafrannsóknastofnunin til að rækjuveiðar verði ekki leyfðar í Arnarfirði að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka