Sveitarstjórnarmenn troðfylltu fundarsal Hilton Nordica hótelsins í gær þegar árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst. Þeir standa margir hverjir frammi fyrir erfiðum ákvörðunum en fjárhagsstaða sveitarfélaganna er þó æði misjöfn eins og Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, benti á við setningu ráðstefnunnar.
Fjölmargar upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga hafa verið lagðar fram á fjármálaráðstefnunni. Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót.
Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar, standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr., sem er 20% af vergri landsframleiðslu og 154% af tekjum þeirra að því er fram kom hjá Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga.
Markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sveitarfélögunum er að skuldir þeirra verði komnar niður í 12-15% af landsframleiðslu 2020. Verkefnið sem sveitarstjórnarmenn standa frammi fyrir er því að finna leiðir til að lækka skuldir um 80 til 126 milljarða kr. til að standast þessi markmið ríkisstjórnar.
Skv. nýsettum sveitarstjórnarlögum eiga skuldir sveitarfélaga ekki að fara fram yfir 150% af tekjum en þau fá þó aðlögunartíma til að ná því marki. Til að uppfylla þetta markmið þarf að lækka skuldir um 66 milljarða kr. Reiknað er með að það geti tekið sum sveitarfélög allt að 10 ár.
Karl Björnsson segir að í reynd séu þau sveitarfélög örfá sem eiga í mjög alvarlegum vanda þegar litið er á brúttóskuldir þeirra og geta þurft á klæðskerasniðnum lausnum að halda. Einhver þeirra þurfi að gera samninga við eftirlitsnefndina með fjármálum sveitarfélaga. Þau gætu þurft að grípa til aðgerða sem kosti allt að 25% álag á útsvar og fasteignaskatta og kalla á enn frekari niðurskurð.
Karl bendir á að almennt sé fjárhagsstaða sveitarfélaga viðunandi en mörg þurfa að bæta framlegð sína. Innan við 10 sveitarfélög af 76 þurfi hins vegar að taka mjög fast á vanda sínum.
Sum sveitarfélög hafa komist í gegnum erfiðleikana án mikils niðurskurðar í rekstri og þjónustu á sama tíma og önnur hafa orðið fyrir miklum fjárhagslegum áföllum, „sérstaklega þau sveitarfélög sem voru í mikil þenslu á árunum fyrir hrun og skulduðu mikið í erlendum gjaldmiðlum,“ sagði Halldór.
„Við sjáum hærri skuldir 2010 en 2009 vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki náð almennilega vopnum sínum til að greiða niður skuldir en fyrst og fremst vegna þess að skuldbindingar sem áður voru utan efnahags eru nú komnar inn í efnahagsreikninga sveitarfélaga.“
Sveitarfélögin hafa gripið til mikils niðurskurðar frá bankahruninu. Raunlækkun útgjalda á 3 árum (2008-2010) er 11,7 milljarðar. Sparað hefur til að mynda verið um 4,9 milljarða í 1.-7. bekk grunnskóla og 2,9 milljarða í íþrótta- og tómstundamálum.
Gagnrýnt var á fjármálaráðstefnunni að stjórnvöld hafa ákveðið að verja 300 milljónum af 700 milljóna aukaframlagi jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins Álftaness. Eftir standi 400 milljónir til að mæta fjárhagserfiðleikum annarra. Þó eðlilegt sé að Álftanes fái framlagið sé ranglátt að sveitarfélög sem háð eru aukaframlaginu taki þetta á sig. Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, sagði koma til greina að setja upp sérstakan neyðarsjóð. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna síðdegis. Minnti hann á að við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var 700 milljónum sérstaklega bætt inn sem aukaframlagi ,,og við merktum það sérstaklega sveitarfélögum í sérstökum fjárhagsvanda og það vissu allir hvað var verið að tala um“. Það sé svo ákvörðun sveitarfélaganna hvernig þau beiti jöfnunarafli jöfnunarsjóðs.