Verða að standa við skuldbindingar

Fyrirtæki, sem á sínum tíma tók 3 milljarða króna lán í Kaupþingi banka til að kaupa hlutafé í bankanum, tókst ekki að sanna að rekstur bankans eftir árið 2006 hafi verið einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans.

Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, að fyrirtækinu IceCapital, sem áður hét Sund, beri að greiða Arion banka lánið, sem tekið var árið 2006.

Af hálfu IceCapital var því haldið fram fyrir dómi, að félagið væri óbundið af lánasamningunum þar sem Kaupþing hefði misnotað viðskiptavini sína til að hafa áhrif á verðmyndun hlutabréfa í bankanum. Þá taldi félagið einnig, að forsendur fyrir lántökunni hefðu brostið við fall Kaupþings í byrjun októbermánaðar 2008.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir að hrun bankanna geti eitt og sér ekki orðið til þess að losa IceCapital undan því að standa við skuldbindingar sínar.

Þá hafi félagið ekki sannað það fyrir dómi, að þeir sem ráku bankann hafi komið honum í þrot, að rekstur bankans eftir 2006 hafi verið einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans, sem íslensk stjórnvöld hafi átt drjúgan þátt í að styðja við, að stjórnendur Kaupþings hafi virst hafa á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst í þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni með þeim afleiðingum að verðbólga hafi magnast hér á landi og verðtryggð lán hækkað langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

„Rannsókn bankahrunsins og háttsemi stjórnenda Kaupþings eru til meðferðar hjá sérstökum saksóknara. Það breytir því ekki að stefndi verður að standa við skuldbindingar sínar hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður," segir í niðurstöðum dómsins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert