Jón hefur beðið um fund með ráðamönnum ESB í Brussel

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra. mbl.is/GSH

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur óskað eftir fundi með ráðamönnum í framkvæmdastjórn ESB vegna rýniskýrslu sambandsins um landbúnaðarmál.

ESB hefur óskað eftir að íslensk stjórnvöld leggi fram áætlun um hvernig þau ætli að standa að breytingum á stofnunum svo að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem landið tekur á sig ef landsmenn samþykkja aðildarsamning við ESB.

Í haust sendi Evrópusambandið frá sér svokallaða rýniskýrslu um landbúnað og samhliða setti sambandið Íslandi skilyrði fyrir því að hefja viðræður um landbúnaðarkafla aðildarsamnings. Íslensk stjórnvöld hafa hafnað því að gera breytingar á stofnunum hér á landi fyrr en það liggur fyrir hvort þjóðin samþykkir aðild að sambandinu.

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, segir að ráðuneytið sé að fara yfir þessi mál í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Málið sé í eðlilegum farvegi. Ráðherra hafi óskað eftir fundi með ráðamönnum í Brussel til að fá skýringar á tilteknum atriðum í rýniskýrslunni, en ekki sé búið að tímasetja neinn fund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert