Hætta á ísingu á vegum

Varað er við ísingu á vegum landsins í kvöld og …
Varað er við ísingu á vegum landsins í kvöld og nótt. mbl.is/RAX

Í kvöld og nótt er hætt við ísingarmyndun á vegum víða um vestan- og suðvestanvert landið. Nú er tekið að lægja og eins dregur mikið úr skúrum og slydduéljum. Samtímis léttir talsvert til. Við þær aðstæður er mjög hætt við að það frysti á vegum, segir í ábendingum veðurfræðings fyrir kvöldið og nóttina.  

Þar sem vegir eru víða blautir suðvestan- og vestanlands sem og á Vestfjörðum  myndast því ísing um leið og frystir. Þetta á líka við um hærri fjallvegi norðvestanlands þar sem hefur sett niður blautan krapasnjó.  Vestantil á Norðurlandi eru vegir sumstaðar blautir eða rakir, en austar á Norðurlandi hefur verið þurrt í dag og svo verður áfram. Á Suðurlandi frystir staðbundið og þá einkum í uppsveitunum.

Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og snjóþekja á Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum heiðum og hálsum. Þó er Gemlufallsheiði greiðfær. Hrafnseyrarheiði er hins vegar ófær vegna snjóflóða.

Á Norðurlandi eru hálkublettir á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði og einnig á Möðrudalsöræfum. Allar aðalleiðir eru auðar um sunnanvert landið og eins á Austurlandi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka