Jarðskjálftar upp á 3,8 stig

Sterkir jarðskjálftar hafa orðið í morgun í Hellisheiði.
Sterkir jarðskjálftar hafa orðið í morgun í Hellisheiði. www.vedur.is

Tveir jarðskjálftar, annar upp á 3,8 stig og hinn jafnvel ívið stærri, sem urðu við Hellisheiðarvirkjun klukkan 9.03 og 9.46 í morgun fundust greinilega í Hveragerði, á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og austur á Hellu.

Uppfært klukkan 11.05

Allt lék á reiðiskjálfi í Hveragerði að sögn viðmælanda mbl.is. Þá fannst skjálftinn einnig í Reykjavík og á Akranesi fannst síðari skjálftinn greinilega. Jarðskjálftinn fannst líka austur á Hellu.

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði að skjálftinn sem varð klukkan 9.46 geti hafa verið ívið stærri en sá sem varð klukkan 9.03 en hann var 3,8 stig. Hann sagði að seinni skjálftinn hefði getað verið upp undir 4 stig.

Frá miðnætti hafa orðið um 75 jarðskjálftar með upptök við Hellisheiðarvirkjun og í nágrenni hennar. Jarðskjálftarnir eru raktir til niðurrennslis vatns í borholur við virkjunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka